Lyfjastofnun vekur athygli á að ný reglugerð sem fjallar um
heimildir tannlækna til að ávísa lyfjum hefur verið birt í B-deild
Stjórnartíðinda. Nýja reglugerðin, reglugerð
nr. 477/2019, kemur í stað eldri reglugerðar um ávísanir tannlækna á lyf, nr.
1077/2006.
Tilefni breytinganna er að bregðast við uppfærslu sem
gerð hefur verið á ATC flokkum auk þess að laga reglugerðina að þeim breytingum
sem orðið hafa á lögum, en lög um tannlækningar nr.
38/1985 voru felld úr gildi árið 2013.
Meðal þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á þessu sviði
með nýju reglugerðinni er að lyfið Tramadól, sem gert var eftirritunarskylt
árið 2013, hefur verið fært í fylgiskjal 2 með öðrum eftirritunarskyldum lyfjum
og er nú einungis ætlað til nota í starfi. Það er í samræmi við hertar aðgerðir
heilbrigðisyfirvalda gegn misnotkun ávanabindandi lyfja.
Tannlæknum er nú skylt að halda sérstaka skrá yfir notkun
eftirritunarskyldra lyfja. Þá hefur Lyfjastofnun fengið það hlutverk nú að
veita tannlæknum með sérfræðileyfi eða sérstaka þekkingu og reynslu, undanþágu
til að ávísa lyfjum, öðrum en þeim sem tilgreind eru í reglugerðinni, en þetta
verkefni var áður hjá heilbrigðisráðuneytinu.