Októberfundur CHMP

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CHMP) hélt fund dagana 10.-13. október sl. Mælt var með að tíu lyf fengju markaðsleyfi

Meðal þeirra lyfja sem hlutu meðmæli var fjórgilt bóluefni gegn beinbrunasótt, lyf til meðferðar blöðruhálskrabbameins og lyf við hvítblæði. Þá mælti CHMP með að COVID-19 bóluefnið Vaxzevria frá AstraZeneca fengi hefðbundið markaðsleyfi, en það hafði frá 29. janúar 2021 verið með skilyrt markaðsleyfi.

Fjórgilda bóluefnið Dengue Tetravalent Vaccine (Live, Attenuated) Takeda hlaut jákvæða umsögn CHMP. Það er ætlað sem vörn gegn beinbrunasótt (e. dengue) sem orsakast af Dengue veirum 1, 2, 3 og 4. -Beinbrunasótt er hitabeltissjúkdómur, smit berst í fólk með biti moskítóflugna en smitast ekki milli manna. Helstu einkenni beinbrunasóttar eru lík flensu og yfirleitt mild, með höfuðverk, bein- og liðverkjum. Einhver hluti sýktra getur þó veikst alvarlega, sem lýsir sér þá með blæðingum í slímhúð, húð og líffæraskemmdum. Áætlað er að árlega deyi 20.000–25.000 af völdum sjúkdómsins á heimsvísu, aðallega börn. -Bóluefnið hlýtur samþykki EMA undir formerkjum verkefnisins Lyf fyrir alla en með því er ætlunin að styðja við fáæk ríki utan Evrópusambandsins. Samtímis fær sama bóluefni jákvæða umsögn undir heitinu Qdenga sem er ætlað til notkunar á EES svæðinu. Bóluefnið má gefa fullorðnum, og börnum frá fjögurra ára aldri.

CHMP mælti með markaðsleyfi fyrir Ebvallo (tabelecleucel) undir þeim formerkjum að um sérstakar aðstæður sé að ræða. Slíkt er heimilt þegar markaðsleyfishafi getur ekki skilað hefðbundnum upplýsingum um virkni og öryggi, þar sem sjúkdómurinn er afar sjaldgæfur eða siðferðilega ekki rétt að afla slíkra gagna. Ebvallo er svokallað ATMP lyf (e. advanced therapy medicinal product) en slík lyf byggja á genabreytingum, eða notkun umbreyttra frumna eða vefja. -Ebvallo er ætlað sem meðferð við sýkingu af völdum Epstein-Barr vírussins hjá börnum eða fullorðnum þar sem orðið hefur óeðlileg fjölgun hvítra blóðkornaí kjölfar líffæraígræðslu eða beinmergsskipta. Umfjöllun um lyfið var flýtt samkvæmt svokallaðri PRIME áætlun EMA, en sú áætlun gerir flýtimeðferð mögulega þegar um er að ræða ný lyf sem lofa góðu um meðferð þar sem engin hefur verið tiltæk.

CHMP mælti með markaðsleyfi fyrir Eladynos (abaloparatide), lyf til að meðhöndla beinþynningu hjá konum í kjölfar breytingaskeiðs.

Livmarli (maralixibat chloride) hlaut meðmæli sérfræðinganefndarinnar samkvæmt reglu um sérstakar aðstæður. Lyfið dregur úr kláða sem orsakast af meðfæddri lifrarbilun, Alagille heilkenni. Heilkennið veldur því að gall safnast upp í lifrinni þar sem gallgangar eru óeðlilegir. Lyfið er fyrir sjúklinga frá tveggja mánaða aldri.

Locametz (gozetotide) hlaut jákvæða umsögn CHMP. Það er lyf til að greina krabbamein í blöðruhálskirtli.

Pluvicto (lutetium (177Lu) vipivotide tetraxetan) er lyf til að meðhöndla krabbamein í blöðruhálskirtli. Það hlaut meðmæli sérfræðinganefndarinnar.

Spevigo (spesolimab) hlaut jákvæða umsögn CHMP um skilyrt markaðsleyfi. Lyfið er til að meðhöndla roðabletti hjá fullorðnum með blöðrusóríasis (e. postular psoriasis)

Samheitalyf

Sérfræðinganefndin mælti með að þrjú samheitalyf fengju markaðsleyfi.

Dimethyl fumarate Teva (dimethyl fumarate), lyf fyrir MS sjúklinga 13 ára og eldri.

Pemetrexed Baxter (pemetrexed) er lyf til að meðhöndla illvígt miðþekjuæxli, sjaldgæft krabbamein í himnunni sem umlykur lungun, og einnig lungnakrabbamein sem ekki er af smáfrumugerð (e. non-small cell lung cancer).

Plerixafor Accord (plerixafor) sem meðferð við eitilfrumukrabbameini og mergæxli, sem eru tvær gerðir hvítblæðis.

Viðbótarábendingar

Mælt var með viðbótarábendingum fyrir lyfin Brukinsa, Libtayo, Lyumjev og Xydalba.

Markaðsleyfi fyrir Vaxzevria

Nefndin mælti síðan með eins og fyrr var nefnt, að COVID-19 bóluefnið Vaxzevria frá AstraZeneca fengi hefðbundið markaðsleyfi. Lyfið hafði frá 29. janúar 2021 verið með skilyrt markaðsleyfi.

Frétt EMA um CHMP fund í október

Dagskrá CHMP fundar í október

Síðast uppfært: 28. október 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat