Til markaðsleyfishafa: íslenskar þýðingar á nýjum og breyttum staðalheitum

Drög að nýjum og breyttum íslenskum þýðingum á staðalheitum fyrir lyfjaform, pakkningar og íkomuleiðir lyfja liggja fyrir. Áður en staðalheitin verða samþykkt og send EDQM til birtingar er hagsmunaaðilum boðið að senda Lyfjastofnun athugasemd við þýðingarnar eigi síðar en 11. apríl nk.

Drög að nýjum og breyttum íslenskum þýðingum á staðalheitum fyrir lyfjaform, pakkningar og íkomuleiðir lyfja sem evrópska lyfjaskráin (EDQM) hefur samþykkt liggja nú fyrir. Um er að ræða 14 ný staðalheiti og 2 breytingar á fyrri þýðingu. Í allmörgum tilfellum eru þetta ný samsett staðalheiti (combined terms) þar sem skeytt er saman tveimur eða fleiri áður samþykktum þýðingum lyfjaforma/íkomuleiða/umbúða.

Einnig er lögð til grundvallarbreyting á lyfjaformum, íkomuleiðum og einingum sem tengjast notkun í leggöng þannig að notuð verði þýðingin „leggöng“ í stað fyrri þýðingar „skeið“. Þetta hefur áhrif á 31 heiti. Ástæða þessarar breytingar er almenn málnotkun í samfélaginu og í lyfjaupplýsingum þar sem orðið skeið er að langmestu leyti eingöngu notað þegar um er að ræða staðalheiti en ekki annars staðar í sömu textum.

Athugasemdir óskast sendar Lyfjastofnun eigi síðar en 11. apríl

Áður en staðalheiti verða samþykkt og send EDQM til birtingar er hagsmunaaðilum boðið að senda Lyfjastofnun athugasemdir við þýðingarnar, sjá meðfylgjandi skjal.

Athugasemdir ásamt greinargóðum útskýringum, og ef við á nýjum tillögum að þýðingum, leiðréttingum eða ábendingum skulu sendar í því skjali sem er til umsagnar, þ.e. í dálkinn lengst til hægri og berast á netfangið [email protected] auðkennt „Athugasemdir við staðalheiti M-2022-03-1171“, eigi síðar en 11.apríl nk.

Athugið að útskýra vel athugasemdir svo ekki fari á milli mála hvað átt er við og af hverju athugasemdin er gerð.

Síðast uppfært: 28. mars 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat