15. Hvernig á að afgreiða lyfjaávísanir þar sem ávísað er meira magni af eftirritunarskyldu lyfi en 30 daga skammti með einni lyfjaávísun?

Lyfjastofnun vísar til 1., 2. og 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1266/2017 með síðari breytingum, en ákvæðin eru svohljóðandi:

Lyfjafræðingur ber ábyrgð á afgreiðslu og afhendingu lyfja og hefur eftirlit með því að rétt sé afgreitt samkvæmt lyfjaávísun. Heimilt er að afgreiða lyf upp að heildarmagni lyfjaávísunar í eins mörgum afgreiðslum og henta þykir, mest fjórum sinnum.

Þegar um er að ræða lyfjaávísun á eftirritunarskyld lyf má mest afgreiða 30 daga skammt, sbr. 2. mgr. 5. gr., þegar a.m.k. 25 dagar eru liðnir frá síðustu afgreiðslu. Lyfjafræðingi er heimilt að víkja frá þessum lágmarks dagafjölda þegar sérstaklega stendur á.

Heimilt er að afgreiða allt að 100 daga skammta í senn nema aðrar takmarkanir gildi.

Þann 1. febrúar 2019 fellur út ákvæðið „mest fjórum sinnum brott“.

Til að hægt sé að afgreiða lyfseðil fjórum sinnum þarf læknir að ávísa lyfinu með fjölnota lyfjaávísun. Samkvæmt upplýsingum sem Lyfjastofnun hefur frá miðstöð rafrænnar sjúkraskrár hjá embætti Landlæknis, sem sér um starfrækslu lyfseðlagáttar, hefur nú verið opnað á að hægt sé að ávísa eftirritunarskyldum lyfjum með fjölnota lyfjaávísunum, enda er það heimilt skv. reglugerð nr. 1266/2017. Ef læknar kvarta undan að þeir geti ekki ávísað eftirritunarskyldum lyfjum með fjölnota lyfjaávísun skal þeim bent á að hafa samband við miðstöð rafrænnar sjúkraskrár hjá embætti Landlæknis.

Ef lyfjaávísun berst í lyfjabúð þar sem ávísað er eftirritunarskyldu lyfi í meira magni en 30 daga skammti með einni lyfjaávísun er einungis heimilt að afgreiða 30 daga skammt og restin af ávísaða lyfinu fellur niður.

11.7.2018

Síðast uppfært: 22. október 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat