Heilbrigðisráðuneytið úrskurðaði þann 24. maí sl. í máli tveggja apóteka sem sameiginlega höfðu kært ákvörðun Lyfjastofnunar um mönnun. Samkvæmt gögnum málsins óskuðu kærendur eftir undanþágu frá kröfum lyfjalaga um fjölda lyfjafræðinga að störfum á almennum afgreiðslutíma, þ.e. að Lyfjastofnun veitti heimild fyrir því að einn lyfjafræðingur væri að störfum á þeim tíma í stað tveggja .
Lyfjastofnun tók ákvörðun í málinu 23. ágúst 2021 og synjaði beiðni apótekanna um undanþágu. Sú ákvörðun var kærð til heilbrigðisráðuneytisins 22. nóvember sama ár og hefur ráðuneytið nú úrskurðað í málinu.
Meginregla lyfjalaga: að jafnaði ekki færri en tveir lyfjafræðingar að störfum í apóteki
Með nýjum lyfjalögum sem tóku gildi á síðasta ári var meginregla eldri lyfjalaga um mönnun í apótekum staðfest. Þannig skulu að jafnaði ekki vera færri en tveir lyfjafræðingar að störfum í apótekum á almennum afgreiðslutíma, og á álagstíma utan almenns afgreiðslutíma. Markmið reglunnar er að tryggja öryggi við afgreiðslu lyfjaávísana, og þar með mikilvæga hagsmuni þeirra sem leysa út lyf.
Lyfjafræðingar bera ábyrgð á afgreiðslu og afhendingu lyfja og hafa eftirlit með að rétt sé afgreitt samkvæmt lyfjaávísunum. Nauðsynlegt er að starfsumhverfi lyfjafræðinga sé þannig úr garði gert að þeir geti sinnt þessum lögbundnu hlutverkum sínum..
Ef ekki eru starfandi tveir lyfjafræðingar í apóteki á almennum afgreiðslutíma og öðrum álagstímum, er um undantekningu frá meginreglunni að ræða.
Aukin fræðsla um lyfjanotkun á meðal markmiða lyfjalaga
Í lyfjalögum frá árinu 2020 er lögð áhersla á mikilvægi þess að veita almenningi upplýsingar um lyf og notkun þeirra. Þetta er áréttað í reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja. Þar telst upplýsingamiðlun hluti af afhendingu lyfs samkvæmt skilgreiningu. Þessi áhersla löggjafans og stjórnvalda skýrist af því að lyf eru ekki eins og hver annar varningur. Þau innihalda virk efni sem með rangri notkun eða meðhöndlun geta valdið heilsutjóni og í alvarlegustu tilvikum dauða.
Faglærðir best til þess fallnir að miðla upplýsingum um lyf
Ljóst er að þeir sem best eru til þess fallnir að miðla upplýsingum um lyf og notkun þeirra í apótekum, eru einstaklingar sem hlotið hafa menntun í faginu. Um skyldur og ábyrgð lyfjafræðinga í apótekum hefur áður verið fjallað í frétt á vef Lyfjastofnunar, en lyfjatæknar teljast einnig til heilbrigðisstarfsmanna og hafa menntun sem nýtist vel til uppýsingamiðlunar um lyf. Raunar eru nýmæli í lögunum frá 2020 sem skylda lyfsöluleyfishafa að hafa í þjónustu sinni lyfjatækna, fáist þeir til starfa.
Undanþága frá mönnunarkröfu veitt að uppfylltum skilyrðum
Líkt og fram hefur komið er Lyfjastofnun heimilt, að fenginni umsókn þar um, að veita undanþágu frá mönnunarkröfunni, sé umfang starfsemi apóteks lítið, og sýnt hefur verið fram á að þjálfað starfsfólk sé lyfjafræðingnum til aðstoðar. Einnig ef leiða má líkur að því að starfræksla apóteks leggist niður á svæðinu, fáist ekki undanþága til að hafa aðeins einn lyfjafræðing að störfum.
Ákvarðanir um undanþágur frá mönnunarkröfu eru birtar á vef stofnunarinnar. Sérstakt tillit hefur verið tekið til apóteka á landsbyggðinni í þessu samhengi, enda afar brýnt að aðgengi að lyfjum sé tryggt í hinum dreifðari byggðum til jafns við höfuðborgarsvæðið.
Mikilvægt er að undirstrika að til þessa hafa flest apótek uppfyllt kröfu um mönnun, og mörg hver gott betur. Lyfjastofnun fagnar því.