Átak Lyfjastofnunar sem haldið var fyrr á árinu bar árangur. Það sýna niðurstöður verkefnisins. "Við erum ánægð með þann árangur sem náðst hefur en niðurstöðurnar benda þó til að við verðum að halda áfram að fræða fólk um mikilvægi þess að geyma lyf á ábyrgan hátt og taka reglulega til í lyfjum heimilisins." Þetta segir Jana Rós Reynisdóttir verkefnastjóri Lyfjaskil-taktu til!
Um verkefnið Lyfjaskil – taktu til!
Lyfjastofnun efndi til átaksverkefnisins Lyfjaskil – taktu til! dagana 2.–10. mars 2017. Markmiðið var að draga úr því magni lyfja sem hent er í klósett, vask eða almennt sorp, og hvetja til þess að að ónotuðum lyfjum sé skilað til eyðingar í apótek. Enn fremur að auka öryggi í því sem snýr að geymslu lyfja á íslenskum heimilum.
Að norskri fyrirmynd
Fyrirmynd verkefnisins var átakið „Rydd skabet“ sem norska velferðarráðuneytið átti frumkvæði að og unnið var undir forystu norsku lyfjastofnunarinnar. Í upphafi íslenska verkefnisins lét Lyfjastofnun vinna könnun meðal almennings í nóvember 2016 og einnig var litið til tölfræði frá Eitrunarmiðstöð Landspítalans. Greining gagnanna sýndi að full þörf var á átaki sem þessu. Lyfjastofnun hafði fyrirfram sett sér þau markmið um árangur, að fleiri skiluðu lyfjum til apóteka, færri hentu lyfjum heima við, hlutfall þeirra sem geymir lyf í læstum skáp hækkaði, og að fyrirspurnum vegna eitranatilvika myndi fækka.
Tölulegar upplýsingar um stöðuna fyrir átakið
Eitrunarmiðstöðinni berast um 900 fyrirspurnir á ári og meirihluti þeirra eru vegna lyfjaeitrana sem orsakast af inntöku fyrir slysni. Árið 2015 var fjórðungur fyrirspurna hjá Eitrunarmiðstöðinni vegna barna 6 ára og yngri. Þá gaf könnunin sem unnin var fyrir Lyfjastofnun meðal annars til kynna, að innan við 7% aðspurðra segjast geyma lyf í læstum lyfjaskáp – hins vegar nefndir staðir eins og kassi ofan á baðskáp, náttborðsskúffa og „út um allt“ - , og að um þriðjungur hendir lyfjum í rusl, vask eða klósett. Þrettán prósent losa sig aldrei við lyf, og aðeins 55% þeirra sem vita hvernig heppilegast er að farga lyfjum, nýta sér þann möguleika.
Markhópar, samstarf og framkvæmd
Átakinu var sérstaklega beint að tveimur hópum, foreldrum ungra barna og fólki eldra en 55 ára, en það er sá aldurshópur sem notar hvað mest af lyfjum. Verkefnið hlaut styrk frá Fræðslusjóði Lyfjafræðingafélags Íslands, og sem gæðaverkefni í heilbrigðisþjónustu frá velferðarráðuneytinu. Af öðrum samstarfsaðilum má nefna öll apótek á Íslandi, Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Meðal þess sem gert var auk könnunarinnar, var samkeppni á Facebook um bestu myndina til að kynna verkefnið, veggspjald sem var sent öllum apótekum og heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, fræðsluefni var birt á vefnum www.lyfjaskil.is, og umfjöllunarefni sent fjölmiðlum.
Árangur
Til að hægt væri að meta hvort verkefnið bæri árangur var kannað það magn lyfja sem apótek senda til eyðingar á sambærilegu tímabili, fyrir átakið og eftir. Einnig var gerð könnun meðal almennings að loknu átakinu sem borin var saman við hina fyrri. Þá voru skoðaðar sölutölur nokkurra fyrirtækja sem selja læsta lyfjaskápa, fyrir og eftir. Niðurstaðan var sú að eftir átakið fækkaði þeim sem henda lyfjum heima við, og fleiri skiluðu lyfjum til apóteka. Þá var þyngd þeirra lyfja sem send voru til förgunar frá apótekum á vordögum 2017, 551 kílói meiri en sama tímabil árið 2016; aukningin nam 22%. Hins vegar jókst notkun á læstum lyfjaskápum aðeins um 2,8%, og þeim sem ekki segjast losa sig við lyf fækkaði lítillega.
Full ástæða til að halda áfram
Af framansögðu er ljóst að átaksverkefnið Lyfjaskil – taktu til! bar töluverðan árangur, en það leiddi einnig í ljós að full þörf er á að halda áfram. Fræða almenning um mikilvægi þess að geyma lyf á öruggum stað, hvetja til tiltektar í lyfjaskápum, og skila ónotuðum og ónothæfum lyfjum til eyðingar í apótek. Ræddur hefur verið sá möguleiki að árlega fari fram sameiginlegt átak í þessu skyni á Norðurlöndum, einhvers konar sameiginlegur dagur lyfjaskila.
Nánar er sagt frá átakinu í grein Brynhildar Briem og Jönu R. Reynisdóttur í óútkomnu Tímariti um lyfjafræði.