Brjóstapúðar áfram til skoðunar

Embætti landlæknis og Lyfjastofnun fylgjast með alþjóðlegri
umfjöllun um brjóstapúða af ákveðinni gerð vegna tengsla þeirra við sjaldgæft
eitilfrumukrabbamein (BIA-ALCL; breast
implant-associated anaplastic large cell lymphoma
). Púðarnir sem sjónir hafa
einkum beinst að eru með hrjúfu yfirborði og framleiddir af lyfjafyrirtækinu Allergan.
Hætt var að selja þessa púða í Evrópu í lok síðasta árs, líkt og fram kom í
tilkynningu frá Lyfjastofnun í desember síðastliðnum.

Umræddir púðar voru notaðir hér á landi á árunum 2007–2015 en
innflutningi þeirra var hætt um mitt ár 2015. Talið er að á þessu árabili hafi
um 470 konur hérlendis fengið þessa tegund brjóstapúða ígrædda. Eitilfrumukrabbamein
tengt brjóstapúðum er afar sjaldgæft og engin dæmi þess hérlendis.

Ekki er talin þörf á að grípa til sérstakra aðgerða vegna þeirra
kvenna sem eru með þessa brjóstapúða. Um þetta eru alþjóðlegar stofnanir og
sérfræðingar sammála í ljósi þess að meinið er sjaldgæft og einkenni þess
afgerandi. Íslensk heilbrigðisyfirvöld munu áfram fylgjast vel með faglegri
umfjöllun heilbrigðisyfirvalda og eftirlitsaðila í Evrópu og víðar um þessi mál.

Vegna þessa máls hafa Embætti landlæknis og Lyfjastofnun tekið
saman spurningar og svör með upplýsingum og fræðslu um eitilfrumukrabbamein
tengt brjóstapúðum (BIA-ALCL). Þær upplýsingar er að finna á vef Embættis
landlæknis.

Ítarefni:

  Frétt Embættis landlæknis

Síðast uppfært: 7. maí 2019
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat