Brugðist við fíknivanda – ákvörðun um 30 daga skammt í senn

Lyfjastofnun hefur frá í haust unnið að því að sett verði ákveðnari skilyrði við ávísun ávana- og fíknilyfja, í því skyni að hamla gegn misnotkun. “Okkar eftirlit snýr að því hvað er afgreitt í apótekunum og við höfum ekki séð neinn misbrest á því. En það sem við erum náttúrlega bara að horfa á er að breyta takmörkunum á því hvað má afgreiða og þar af leiðandi ávísa, og líka binda þetta við ákveðna sérfræðihópa.“ sagði Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar í fréttum RÚV 28. janúar.

Með þetta að leiðarljósi setti Lyfjastofnun fram tillögur í september sl. og óskaði eftir umsögnum um þær. Ýmsar athugasemdir voru gerðar við tillögurnar og komu þær m.a. frá  sjúklingasamtökum og læknum. Meðal ábendinga var að fyrirhuguð ákvörðun hefði í för með sé aukinn kostnað, bæði fyrir sjúklinga og Sjúkratryggingar Íslands, samhliða auknu álagi lækna. Einnig þótti tímarammi of knappur. Því var ákvörðun um að takmarka lyfjaávísanir af fyrrgreindum toga frestað.

Ákvörðun um 30 daga hámarks skammt í senn
Nú hefur Lyfjastofnun tekið ákvörðun um að einungis megi afgreiða ákveðin lyf sem nemur þörf til mest 30 daga í senn. Þau lyf sem ákvörðunin nær til má sjá með því að smella á hlekkinn.

Einnig er fyrirhugað að binda ávísun lyfja sem innihalda oxýkódon við ákveðna sérfræðihópa. Ekki mun gerast þörf á að tilgreina örvandi lyfin, þau sem innihalda metýlfenidat, við þá fyrirhuguðu ákvörðun Lyfjastofnunar, þar sem í nýrri reglugerð frá velferðarráðuneytinu sem gengur í gildi í vor, eru settar skorður við ávísunum þessara lyfja með lyfjaskírteini.  

Stefnt er að því að nýjar reglur Lyfjastofnunar taki gildi 3. apríl, sama dag og hin nýja reglugerð um lyfjaávísanir.  

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra - reglur um lyfjaávísanir hertar
Nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem tekur gildi 3. apríl næstkomandi er ætlað að sporna við misnotkun ávanabindandi lyfja. Þar er einkum kveðið á um örvandi lyf, svo sem amfetamín og metýlfenídat. Sjúklingur sem þessum lyfjum er ávísað á skal hafa lyfjaskírteini frá Sjúkratryggingum Íslands.  Enn fremur skal meginreglan vera sú að lyfi sé ávísað rafrænt, pappírslyfseðlar verði víkjandi. Þá er ekki heimilt að ávísa ávana- og fíknilyfi ef í lyfjaávísanagátt er gild ávísun fyrir sama sjúkling á sama lyf með sama styrkleika. 

Ávana- og fíknilyf, listi  

Frétt uppfærð 5.2. 2018

Síðast uppfært: 31. janúar 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat