Samstarf viðbragðsaðila hérlendis hefur verið eflt vegna COVID-19 veirunnar sem greindist í Kína í lok síðasta árs og hefur valdið faraldri þar, einkum í Hubei-héraði. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur fulla ástæðu til að vera á varðbergi og gera það sem hægt er til að hemja útbreiðslu veirunnar á heimsvísu. Viðbragðsaðilar hérlendis hafa því eflt samstarf sitt. Fulltrúar frá Lyfjastofnun hafa þannig sótt fundi með fulltrúum frá sóttvarnalækni og Almannavörnum og innlent samstarf vegna málsins nær einnig til ráðuneyta.
Lítill hluti lyfjaframleiðslu fyrir EES-svæðið í Hubei-héraði
Fjöldi lyfjaverksmiðja er starfræktur í Kína, þar með talið verksmiðjur sem framleiða virk lyfjaefni fyrir fullbúin lyf á Evrópumarkað. Á Hubei-svæðinu, þar sem veikin af völdum veirunnar hefur verið hvað skæðust, hefur orðið vart við röskun í framleiðslu lyfja, en slíkt er nánast einskorðað við það hérað. Lyfjaframleiðsla á öðrum svæðum í Kína er að mestu leyti með eðlilegum hætti þegar hér er komið sögu, og ekki er gert ráð fyrir að sýkin og afleiðingar hennar hafi áhrif á starfsleyfi neinna framleiðslustaða í Kína að svo stöddu. Þá má geta þess að tiltölulega lítill hluti af lyfjaframleiðslu fyrir evrópskan markað fer fram í Hubei-héraði og því ekki líkur á að framboð lyfja í Evrópu dragist saman af þessum sökum.
Aðgerðir Lyfjastofnunar
Aðgerðir Lyfjastofnunar varðandi COVID-19 veiruna eru víðtækar og miðast að því að tryggja lyfjaöryggi í landinu eftir fremsta megni. Í því skyni hefur neyðaráætlun stofnunarinnar verið virkjuð. Birgðastaða lyfja í landinu hefur verið könnuð í samráði við birgja, og ýmis greiningarvinna hefur farið fram. Meðal annars hefur verið skoðað hversu stór hluti lyfja á markaði hérlendis er framleiddur að hluta eða öllu leyti í Kína, en eins og áður sagði fer tiltölulega lítill hluti af lyfjaframleiðslu fyrir evrópskan markað fram í Hubei-héraði. Ekki verður því séð miðað við óbreytt ástand að líkur séu á lyfjaskorti hérlendis af þessum sökum.
Víðtækt samstarf lyfjastofnana í Evrópu
Víðtækt samstarf er milli evrópskra lyfjastofnana undir hatti Lyfjastofnunar Evrópu (EMA). Á þeim vettvangi á Lyfjastofnun fulltrúa í ýmsum nefndum og sérfræðihópum. Einn þeirra snýr að lyfjaöryggi og lyfjaskorti og hefur hópurinn átt reglubundna símafundi þar sem sérstaklega er fylgst með framvindu mála sem varða áhrif vegna veirusýkingarinnar, skipst er á upplýsingum og aðgerðir samræmdar. Þar að auki á Lyfjastofnun í sérstöku samstarfi lyfjastofnana og aðila sem vinna með lyfjaskort á Norðurlöndunum. Á þeim vettvangi er einnig fylgst sérstaklega með þróun lyfjamála hvað COVID-19 varðar fyrir norrænan lyfjamarkað.
Lyfjastofnun mun áfram fylgjast grannt með framvindu mála í samvinnu við evrópskar lyfjastofnanir og aðra viðbragðsaðila hérlendis. Upplýsingum verður miðlað eftir því sem þörf krefur.