Lyf eru ávísanaskyld nema sérstaklega sé sótt um heimild til að selja lyf án lyfseðils. Ef ekki er um miðlægt skráð lyf að ræða, er ákvörðun um að veita heimild til að selja lyf án lyfseðils landsbundin. Hérlendis er sú ákvörðun tekin af Lyfjastofnun og gildir eingöngu um sölu lyfsins á íslenskum markaði. Samþykki fyrir sölu án lyfseðils í öðru landi þýðir ekki sjálfkrafa að sams konar heimild verði veitt á Íslandi.
Á vefsvæðum Lyfjastofnunar hafa verið birtar leiðbeiningar ætlaðar markaðsleyfishöfum sem hyggjast sækja um að lyf verði fáanlegt í lausasölu. Annars vegar á íslensku, hins vegar á ensku. Þar má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar, m.a. hvaða gögn þurfa að fylgja slíkri umsókn.