Listi yfir nauðsynleg lyf ætluð mönnum birtur á vef Lyfjastofnunar

Samkvæmt lögum skal Lyfjastofnun birta á vef sínum lista yfir lyf sem skilgreind hafa verið sem nauðsynleg, öryggis vegna. Á nýbirtum lista er að finna 750 lyf

Lyfjastofnun hefur birt lista yfir þau lyf ætluð mönnum sem teljast nauðsynleg svo öryggi landsmanna sé ekki ógnað.

Birting listans er í samræmi við 29. grein lyfjalaga. Þar er annars vegar kveðið á um að markaðsleyfishafa beri skylda til að eiga tiltækar nægar birgðir nauðsynlegra lyfja sem hafa verið markaðssett, hins vegar um það hlutverk Lyfjastofnunar að skilgreina í samráði við þá sem málið varðar hvaða lyf teljist nauðsynleg. Enn fremur skal Lyfjastofnun birta lista yfir þessi lyf á vef sínum. -Nýbirtur listi var unninn í samráði við Landspítalann, Embætti landlæknis og lyfjaheildsölur.

Lyf úr allflestum lyfjaflokkum er að finna á listanum. Sem dæmi má nefna hjarta- og segavarnarlyf, öndunarfæralyf, sýklalyf, lyf við sykursýki og lyf gegn ofnæmi. Einnig geðlyf, svæfingarlyf, æxlishemjandi lyf auk innrennslislyfja á borð við blóðskilunar- og næringarvökva.

Listinn uppfærður mánaðarlega

Stefnt er að því að listinn yfir nauðsynleg lyf verði uppfærður mánaðarlega. Slík endurskoðun er nauðsynleg, m.a. vegna lyfja sem kunna að hafa verið afskráð eftir fyrstu birtingu, og lyfja sem síðan hafa komið á markað.

Í fyrrnefndri lagagrein er tiltekið, að í lista yfir nauðsynleg lyf skuli koma fram það lágmarksmagn birgða sem telst ásættanlegt. Þeim upplýsingum verður bætt við listann á næstu vikum.

Fyrirspurnum vegna listans má koma á framfæri í gegnum netfangið [email protected]

Síðast uppfært: 10. október 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat