Lyfjakostnaður lækkar um 540 milljónir kr. á ári eftir endurskoðun Lyfjastofnunar á heildsöluverði

Lyfjastofnun þakkar lyfjafyrirtækjum í landinu gott samstarf við að ná fram þessum sparnaði í þágu ríkisins og lyfjanotenda

Undir lok síðasta árs lauk Lyfjastofnun endurskoðun á heildsöluverði allra lyfseðilsskyldra lyfja í lyfjaverðskrá með veltu árið 2020. Áætlað er að verðendurskoðunin lækki lyfjakostnað um 540 milljónir kr. á ársgrundvelli, þar af eru um 413 milljónir vegna almennra lyfseðilsskyldra lyfja og um 126 milljónir vegna leyfisskyldra lyfja, (áður kölluð sjúkrahúslyf eða S-merkt lyf). Ávinningurinn skiptist á milli Sjúkratrygginga Íslands, Landspítala og sjúklinga.

Hvers vegna verðendurskoðun?

Lyfjastofnun er falið það hlutverk að endurmeta forsendur lyfjaverðs hér á landi, samanborið við sömu lyf viðmiðunarlanda eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti og gera tillögur um breytingar gefi matið tilefni til þess.

Viðmiðunarlöndin eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð og er lyfjaverð á Íslandi borið saman við lyfjaverð í þessum löndum. Verðsamanburður á almennum lyfjum byggist að jafnaði á meðalverði í viðmiðunarlöndunum fjórum, en sé velta viðkomandi lyfs mjög lág er heimilt að óska eftir 15% hærra verði umfram viðmið. Við verðsamanburð á leyfisskyldum lyfjum án samnings við Landspítala er tekið mið af lægsta verði í sömu löndum en meðalverði sé lyfið á samningi.

Almenn lyf

Verðlækkanir í kjölfar verðendurskoðunar á almennum lyfjum tóku gildi 1. desember. Áætlað er að kostnaður vegna almennra lyfja muni lækka um samtals 413 milljónir kr. á ári. Það sem sparast skiptist á milli Sjúkratrygginga Íslands og lyfjanotenda með þeim hætti að tveir þriðju koma í hlut Sjúkratrygginga, þriðjungur í hlut lyfjanotenda.

Leyfisskyld lyf

Leyfisskyld lyf eru lyf sem eingöngu er heimilt að nota að undangengnu samþykki lyfjanefndar Landspítala. Yfirleitt er um að ræða kostnaðarsöm eða vandmeðfarin lyf og notkun þeirra krefst jafnan sérfræðiþekkingar og aðkomu heilbrigðisstarfsfólks.

Verðendurskoðun Lyfjastofnunar á leyfisskyldum lyfjum leiddi í ljós verðlækkun sem tók gildi 1. nóvember 2021. Áætlað er að lyfjakostnaður Landspítala lækki við það um 126 milljónir kr. á ársgrundvelli.

Allar fjárhæðir miðast við lyfjaverðskrá 1. júní 2021 og lyfjaverðskrárgengi 1. júní 2021. Um er að ræða heildsöluverð með virðisaukaskatti.

Síðast uppfært: 4. apríl 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat