Mikilvægt að tilkynna aukaverkanir lyfja – evrópskt átak

Þessa viku fer fram á samfélagsmiðlum átaksverkefni á vegum Lyfjastofnunar sem ætlað er
að auka vitund almennings og heilbrigðisstarfsfólks um mikilvægi þess að
tilkynna aukaverkanir lyfja. Verkefnið er hluti af samevrópsku átaki sem
reyndar teygir sig að nokkru leyti út fyrir Evrópu, nú eins og í fyrra. Löndin
sem taka þátt í átakinu auk Evrópulanda eru Ástralía, Mexíkó, Kólumbía, Ekvador, El Salvador, Írak, Jórdanía og Nýja-Sjáland,
alls 32 lönd. Efnt er til átaksins nú í þriðja sinn og hefur Lyfjastofnun verið
með frá upphafi.

Aukið öryggi
Lyf gegna jafnan því hlutverki sem þeim er ætlað, enda ítarlegar prófanir
gerðar áður en þau eru sett á markað. Þrátt fyrir þetta má gera ráð fyrir að
einhver hópur finni fyrir óþægilegum einkennum til hliðar við ætlaða virkni,
og þá er mikilvægt að tilkynna um aukaverkun. Slíkt getur orðið til þess að
leiðbeiningum um notkun lyfsins til lækna og
annarra heilbrigðisstarfsmanna er breytt, sem aftur leiðir af sér meira
öryggi fyrir aðra notendur.

Áhersla lögð á börn og barnshafandi
konur 
Börn
geta brugðist ólíkt við lyfjum en fullorðnir, jafnvel þótt um sambærileg lyf sé
að ræða. 

Eðli máls samkvæmt eru ekki gerðar prófanir á virkni lyfja á fóstur. Og almennt
talað eru litlar upplýsingar til um aukaverkanir lyfja sem barnshafandi konur
þurfa að taka. Barnshafandi konur ættu alltaf að ráðfæra sig við lækni varðandi
lyfjanotkun, og tilkynna aukaverkanir ef grunur er um slíkt.

Allir geta tilkynnt aukaverkun
Mikilvægt er að benda á að allir geta tilkynnt um aukaverkun af notkun lyfs,
almenningur ekki síður en heilbrigðisstarfsmenn. Þetta á líka við þótt aðeins
sé um grun að ræða. Sérfræðingar munu taka við tilkynningunum og meta vægi
upplýsinganna sem þar koma fram. 
Tilkynningu um aukaverkun, eða grun um aukaverkun, má senda Lyfjastofnun
í gegnum vef
stofnunarinnar
.  

Síðast uppfært: 20. nóvember 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat