Ný lyf á markað í ágúst

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. ágúst.

Ný lyf á markað 1. ágúst 2021

Ný lyf fyrir menn

Escitalopram Stada, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 5 mg, 10 mg, 15 mg og 20 mg af escitaloprami sem oxalat. Lyfið er ætlað sem meðferð gegn alvarlegum þunglyndisköstum, gegn felmtursröskun, með eða án víðáttufælni, gegn félagsfælni, gegn almennri kvíðaröskun eða sem meðferð gegn þráhyggju- og árátturöskun. Lyfið er samheitalyf lyfsins Cipralex og er lyfseðilsskylt.

Fluoxetine Vitabalans, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 20 mg af fluoxetinhýdróklóríði, sam jafngildir 20 mg af fluoxetini. Lyfið er ætlað sem meðferð gegn alvarlegum þunglyndisköstum, áráttu-þráhyggjuröskun og lotugræðgi hjá fullorðnum. Að auki þá er lyfið ætlað til meðferðar við miðlungs til alvarlegum þunglyndisköstum hjá börnum og unglingum, 8 ára og eldri. Lyfið er samheitalyf lyfsins Fontex og er lyfseðilsskylt.

Hydrokortison Evolan krem, 1 g af kremi inniheldur 10 mg af hýdrókortisóni. Lyfið er ætlað til meðferðar gegn bráðaexemi og langvinnu exemi af ýmsum orsökum. Einnig er lyfið ætlað til meðferðar gegn kláða í kringum endaþarmsop og kynfæri. Lyfið er blendingslyf og er markaðsleyfi þess byggt að hluta á lyfinu Uniderm 1% cream sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lausasölulyf.

Ný dýralyf

Cytopoint, stungulyf, lausn fyrir hunda. Hvert 1 ml hettuglas inniheldur 10 mg, 20 mg, 30 mg eða 40 mg af lokivetmab. Lyfið er ætlað til meðferðar við kláða af völdum ofnæmisbólgu (e. allergic dermatitis) hjá hundum. Einnig er lyfið ætlað til meðferðar við klínískum einkennum húðbólgu af völdum ofnæmishneigðar (e. atopis dermatitis) hjá hundum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Librela, stungulyf, lausn fyrir hunda. Hvert 1 ml hettuglas inniheldur 5 mg, 10 mg, 15 mg, 20 mg eða 30 mg bedinvetmab. Lyfið er ætlað til að draga úr verkjum sem tengjast slitgigt hjá hundum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 18. ágúst 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat