Tími verkefnis um rafræna fylgiseðla framlengdur um ár

Tilraunaverkefnið hófst í mars 2021 og mun standa til febrúarloka 2025. Verkefnið er á vegum heilbrigðisráðuneytisins

Forsaga verkefnisins er sú að Norðurlandaþjóðirnar lögðu sameiginlega til við Evrópusambandið að reglur um fylgiseðla yrðu endurskoðaðar. Að heimilt yrði nota eingöngu rafræna fylgiseðla lyfja, í stað þess að prentuð útgáfa fylgdi einnig. Þetta hefði þann kost í för með sér að auðvelda Norðurlandaþjóðunum sameiginleg lyfjainnkaup og þar með lækka innkaupsverð, myndi draga úr hættu á lyfjaskorti og auka þannig öryggi sjúklinga.

Verkefnið sjálft

Ísland hefur leitt tilraunaverkefnið um rafræna fylgiseðla sem hófst 1. mars 2021. Ákveðið var að það skyldi einskorðast við tiltekin lyf sem eingöngu eru ætluð til notkunar á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum (H-merktum). Óskað var eftir umsóknum um lyf sem verkefnið tæki til og upphaflega voru 26 lyf skráð þegar það hófst. Nú eru þau 38 talsins, 50 þegar sundurliðað er eftir mismunandi styrkleika og lyfjaformi.

Markmið

Markmiðið verkefnisins er að meta hvort notkun rafrænna fylgiseðla eingöngu tryggi með fullnægjandi hætti örugga lyfjameðferð sjúklings. Jafnframt verður kannað hvort notkun rafrænna fylgiseðla leiði til þess að H-merktum lyfjum á markaði fjölgi.

Framlengt um eitt ár – enn opið fyrir nýjar umsóknir

Upphaflega átti verkefnið að standa fram að mánaðamótum febrúar/mars í ár en hefur verið framlengt til febrúarloka 2025. Enn er hægt að bæta við nýjum lyfjum með því að senda erindi í gegnum hafa samband form á vef stofnunarinnar.

Verkefnið er á vegum heilbrigðisráðuneytisins og nánar má lesa um framlengingu verkefnisins á vef Stjórnarráðsins.

Síðast uppfært: 17. janúar 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat