Úrskurður Persónuverndar um öryggi persónuupplýsinga í lyfjaávísanagátt

Gáttin er rekin af embætti landlæknis

Í apríl sl. kom upp mál tengt lyfjaávísanagátt sem notuð er við afgreiðslu lyfja í apótekum. Talið var að starfsmaður apóteks hefði flett þjóðþekktum einstaklingum upp í gáttinni að tilefnislausu. Málið hefur verið til umfjöllunar bæði hjá Lyfjastofnun, embætti landlæknis og Persónuvernd, auk þess sem það er til rannsóknar hjá lögreglu.

Rafrænar lyfjaávísanir vistaðar í lyfjagagnagrunni

Þegar læknir ávísar lyfi til einstaklings er þeim upplýsingum beint í miðlægan skeytamiðlara sem í daglegu tali er kallaður lyfjagátt. Embætti landlæknis hefur umsjón með lyfjagáttinni og ber ábyrgð á henni. Starfsmenn apóteka hafa aðgang að gáttinni svo hægt sé að afgreiða lyf til einstaklinga. Meðan lyf hafa ekki verið afgreidd er hægt að sjá hvaða lyfi hefur verið ávísað á tiltekinn einstakling. Í núverandi kerfi er hægt að sjá hvar og hvenær flett er upp í lyfjagáttinni en ekki er hægt að greina hvaða starfsmaður á í hlut.

Úrskurður

Úrskurður Persónuverndar kemur í kjölfar frumkvæðisathugunar stofnunarinnar hjá embætti landlæknis, á öryggi persónuupplýsinga í lyfjaávísanagátt. Niðurstaða Persónuverndar er á þann veg að embætti landlæknis hafi ekki gert viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja viðunandi öryggi persónuupplýsinga í lyfjaávísanagátt. Í ákvörðunarorðum úrskurðarins kemur fram að embætti landlæknis skuli gera viðeigandi ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir óheimilan aðgang að persónuupplýsingum í lyfjaávísanagátt, þ. á m. tilhæfulausum uppflettingum starfsmanna apóteka. Umræddar ráðstafanir eiga einkum að taka til þess að persónubundinn rekjanleiki uppflettinga í gáttinni verði tryggður. Er embætti landlæknis gert að verða við þessu eigi síðar en 1. september nk.

Lyfjastofnun hefur komið upplýsingum um niðurstöðu Persónuverndar áleiðis til apóteka, í því skyni að þessi vinna geti hafist sem fyrst.


Úrskurður Persónuverndar

Sjá einnig: Rík áhersla lögð á þagnarskyldu starfsmanna apóteka samkvæmt lögum

Síðast uppfært: 30. júní 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat