Má kljúfa eða mylja töflur?

Lyfjaform og hjálparefni geta ráðið úrslitum um að lyfið virki eins og því er ætlað að gera. Þess vegna má ekki kljúfa eða mylja sum lyf áður en þau eru tekin.

Það getur verið freistandi að skipta töflu í smærri einingar sem auðveldara er að kyngja eða mylja og blanda saman við eitthvað sem felur bragðið. Slíkt er varasamt því það getur valdið því að lyfið virki ekki eins og því er ætlað. Fram kemur í fylgiseðli lyfsins hvort það megi kljúfa eða mylja töfluna eða hvort nauðsynlegt sé að gleypa hana í heilu lagi.

Hylki eða tafla samanstendur af tvenns konar innihaldsefnum:

  • Lyfið sjálft. Þetta er virka efni lyfsins.
  • Önnur innihaldsefni sem bætt er við af mörgum mismunandi ástæðum. Þessi efni eru kölluð hjálparefni.

Til þess að virka efnið verki eins og því er ætlað verður það að skila sér með öruggum hætti á réttan stað í líkamanum. Sum virk efni hafa staðbundin áhrif beint í maga eða þörmum, en flest virku efnin verður líkaminn að taka upp í gegnum blóðið áður en þau geta haft áhrif á önnur líffærakerfi.

Hjálparefnin pakka lyfinu inn, halda því saman og tryggja að virka efni lyfsins fari um líkamann eins og því er ætlað þannig að rétt upptaka þess í líkamanum sé tryggð.

Sum virk efni brotna niður þegar þau komast í snertingu við sýru. Lyf með slíkum virkum innihaldsefnum eru oft húðuð til að tryggja að lyfið komist á réttan áfangastað og nái fullri verkun. Ef um er að ræða töflu eða hylki með húð til varnar magasýru er mikilvægt að kljúfa ekki eða opna töfluna eða hylkið til að forðast að magasýra komist inn í lyfið og eyðileggi það.

Í öðrum lyfjum eru minni kúlur inni í töflunni eða hylkinu sem mynda þessa vörn og þá er hægt að deila eða opna lyfið án þess að verndandi áhrifin hverfi. Það er yfirleitt ekki í lagi að tyggja eða mylja þessar kúlur. Þær ætti að gleypa heilar, annað hvort sem duft eða í sumum tilfellum blanda þeim í drykk.

Forðatöflur

Forðatöflur eru töflur og hylki sem virka yfir langan tíma. Þetta þýðir að virka efnið er losað smátt og smátt í líkamann á nokkrum klukkustundum. Slík geymsluáhrif eru gagnleg fyrir mörg lyf, sérstaklega ef bestu áhrifin nást þegar líkaminn fær stöðugt framboð af virka efninu. Slík lyf þarf ekki að taka eins oft.

Sum lyf þarf að gleypa í heilu lagi til að þessi áhrif haldist. Ef forðatöflur eru muldar eða klofnar getur forðavirkni lyfsins horfið.

Hvernig er hægt að nálgast upplýsingar um hvort í lagi er að kljúfa eða mylja lyfið?

Í fylgiseðli lyfsins, undir kaflanum “Hvernig nota á…” eru upplýsingar um hvernig nota á lyfið, þar með talið upplýsingar um hvort á að gleypa lyfið heilt eða hvort í lagi sé að kljúfa lyfið eða mylja það. Í vafaatriðum er hægt að spyrja lyfjafræðing eða lyfjatækni í apóteki.

Síðast uppfært: 16. febrúar 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat