Almennum verslunum heimilt að selja tiltekin lausasölulyf að fenginni undanþágu Lyfjastofnunar

Tæmandi listi yfir verslanir sem hafa gilda undanþágu birtur á vef Lyfjastofnunar

Lyfjastofnun er heimilt að veita undanþágu frá almennri kröfu lyfjalaga um lyfsöluleyfi til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun. Um þetta er kveðið á um í 33. gr. lyfjalaga nr. 100/2020. Slíkar undanþágur má aðeins veita þar sem ekki er starfrækt apótek eða lyfjaútibú.

Þetta hefur verið nánar skilgreint þannig að til þess að heimilt sé að selja tiltekin lausasölulyf í almennri verslun, þurfi að vera a.m.k. 20 kílómetrar í næsta apótek eða lyfjaútibú. Almenn verslun telst samkvæmt þessu vera verslun sem ekki er starfrækt á grundvelli lyfsöluleyfis.

Rétt meðferð, gæði og öryggi lyfja m.a. tryggð með útgáfu leiðbeininga

Lyfjastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um meðferð og sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennum verslunum sem handhöfum undanþágu ber að fylgja. Markmið leiðbeininganna er að tryggja rétta meðferð á þeim tilteknu lausasölulyfjum sem heimilt er að selja án lyfsöluleyfis til að tryggja gæði og öryggi lyfja. Meðal þess sem kemur fram í leiðbeiningunum er að lausasölulyf sem boðin eru til sölu í almennum verslunum skulu geymd fyrir aftan afgreiðsluborð og ekki höfð í sjálfvali. Í hvert sinn sem keypt eru lausasölulyf skal kaupanda sagt frá því að í lyfjapakkningunni sé fylgiseðill með helstu upplýsingum um lyfið og notkun þess. Starfsfólki almennra verslana er þannig óheimilt að veita nánari fræðslu um lyf enda hefur það ekki hlotið til þess faglega menntun. Almennar verslanir sem eru handhafar undanþágu frá kröfu um lyfsöluleyfi falla undir eftirlitsþega Lyfjastofnunar. Eftirlit með lyfsölu er mikilvægur þáttur í að tryggja rétta meðhöndlun lyfja ásamt og gæðum og öryggi.

Hvaða lyf er almennum verslunum heimilt að selja?

Lyfjastofnun hefur skilgreint þau lyf, styrkleika og pakkningar sem almennum verslunum er heimilt að bjóða til sölu skv. undanþágunni. Um tæmandi lista er að ræða.

Verslanir sem hafa heimild til sölu tiltekinna lausasölulyfja

Listi yfir verslanir sem hafa heimild til sölu tiltekinna lausasölulyfja sbr. ofangreint er aðgengilegur á vef Lyfjastofnunar. Einstaklingum sem kaupa lyf í almennum verslunum er bent á lestur fylgiseðils sem fylgir í pakkningu lyfsins og er einnig aðgengilegur í sérlyfjaskrá.

Síðast uppfært: 15. júní 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat