Lyfjaskortur – Lyfjastofnun mikilvægur hlekkur

Samstarf aðila á markaði og upplýsingamiðlun lykilatriði

Umræða um lyfjaskort kemur reglubundið upp og er áberandi þegar mikið notuð lyf eru ófáanleg. Í þeim tilvikum er oft um alþjóðlegan vanda að ræða en smæð íslenska markaðarins veldur því að stundum er erfitt að nálgast lítið notuð lyf.

Misskilnings um hlutverk Lyfjastofnunar virðist gæta

Nokkurs misskilnings virðist gæta um hlutverk Lyfjastofnunar í tengslum við lyfjaskort. Lyfjastofnun ber að hafa eftirlit með framboði lyfja þannig að lyfjaskortur hafi sem minnst áhrif á öryggi sjúklinga. Það eru hins vegar heildsöluleyfishafar sem bera ábyrgð á að eiga nægar birgðir af nauðsynlegum lyfjum sem hafa hlotið markaðsleyfi hér á landi og verið markaðssett. 

Lyfjastofnun hefur ekki yfirsýn yfir birgðastöðu lyfja í rauntíma hvorki hjá heildsölum né apótekum. Innflutningsaðilum undanþágulyfja er ekki skylt að tilkynna skort þeirra og þar af leiðandi getur Lyfjastofnun ekki miðlað slíkum upplýsingum með læknum, apótekum eða lyfjanotendum.

Aðgerðir Lyfjastofnunar til að bregðast við lyfjaskorti

Ekkert hefur skort á vilja Lyfjastofnunar til að beita sér í baráttunni við lyfjaskort eins og fjölmargar aðgerðir á vegum stofnunarinnar sl. ár eru til marks um. Í kjölfar tilkynningar um lyfjaskort grípur lyfjaskortsteymi stofnunarinnar til margvíslegra aðgerða til að koma í veg fyrir og draga úr áhrifum. Dæmi um aðgerðir er miðlun upplýsinga til lyfjafyrirtækja t.d. svo skortur á einu lyfi hafi ekki keðjuverkandi áhrif á önnur lyf.

Einnig hefur almenn upplýsingamiðlun um lyfjaskort verið bætt verulega. Það veitir meira gagnsæi fyrir lyfjanotendur og heilbrigðisstarfsmenn. Sömuleiðis rafræn afgreiðsla undanþágulyfja samdægurs og nýting úrræðis þar sem apótekum er heimilað að breyta lyfjaávísun læknis í tiltekið undanþágulyf.

Aðgerðir Lyfjastofnunar til að auðvelda skráningu og markaðssetningu lyfja

Það leikur enginn vafi á því að hagur neytenda er að sem flest lyf séu markaðssett. Lyfjastofnun hefur gert fjölmargt til að hvetja til og auðvelda skráningu lyfja hérlendis. Meðal annars hefur verið boðið upp á afslætti af skráningargjöldum og einfaldari skráningarferla, svokallaða núll daga ferla fyrir lyf sem vantar. Þetta hefur skilað árangri því nú þegar hafa 94 lyf hlotið markaðsleyfi á þennan máta.

Lyfjastofnun hefur um árabil talað fyrir því á evrópskum vettvangi að fylgiseðlar lyfja verði rafrænir og áletranir á umbúðum einfaldaðar. Vonir standa til að slíkt verði mögulegt með uppfærðri evrópskri lyfjalöggjöf. Lyfjastofnun hefur auk þess í tæp þrjú ár verið leiðandi þátttakandi í tilraunaverkefni um rafræna fylgiseðla lyfja sem gefin eru á heilbrigðisstofnunum.

Ýmsar ívilnandi breytingar hafa verið gerðar í tengslum við verðákvarðanir. Nú geta lyfjafyrirtækin sótt um hærra verð fyrir lyf sem eru viðkvæm á markaði s.s. lyf með lága veltu, sýklalyf, augnlyf og lyfjaform sem henta börnum (t.d. mixtúrur og stíla). Auk þess er heimilt að óska eftir hærra verði en viðmið segir til um ef um er að ræða alvarlegt vandamál varðandi aðgengi að nauðsynlegu lyfi.

Ábyrgð og skyldur þegar lyfjaskortur kemur upp

Eitt af hlutverkum Lyfjastofnunar er að hafa eftirlit með framboði lyfja hérlendis.

Lyfjaheildsalar bera ábyrgð á að ávallt skuli vera til birgðir helstu lyfja í landinu en þeim ber þó engin skylda til að eiga tilteknar birgðir undanþágulyfja eða tilkynna skort þeirra.

Hvorki innflutningur né framleiðsla lyfja eru á meðal hlutverka Lyfjastofnunar þó þess misskilnings virðist stundum gæta.

 

Góður fyrirvari, tilkynningar og samskipti mikilvæg til að leysa skort

Þrátt fyrir að skyldum sé sinnt getur ýmislegt orðið til þess að lyf skorti tímabundið. Bendi eitthvað til að lyfjaheildsali geti ekki staðið við skuldbindingar sínar ber honum að tilkynna Lyfjastofnun fyrirsjáanlegan lyfjaskort. Góður fyrirvari, tilkynningar og samskipti eru nauðsynleg svo unnt sé að leysa lyfjaskort eða lágmarka áhrif hans á alla hlutaðeigandi.

Markmiðið er að draga úr óþægindum fyrir lyfjanotendur og auka skilvirkni í heilbrigðisþjónustu í þessum aðstæðum. Nauðsynlegt er að greina á milli þess þegar einhver önnur úrræði eru fyrir hendi og þegar skortur er alvarlegur. Stöðugt er leitað leiða til að auka framboð og sporna við lyfjaskorti en vonir standa til að hægt verði að fá upplýsingar um birgðastöðu í rauntíma með miðlægum gagnagrunni.

Af framangreindu má sjá að Lyfjastofnun hefur gert eins mikið til að bregðast við lyfjaskorti og stofnuninni er mögulegt innan þess laga- og fjárhagsramma sem stofnuninni er gert að starfa eftir. Ef vilji löggjafans er að stofnunin beiti sér með auknum hætti gegn lyfjaskorti t.d. með lækkun gjalda eða öðrum hætti er það eingöngu mögulegt með auknum fjárheimildum.

Síðast uppfært: 16. nóvember 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat