Lyfjastofnun Evrópu varar við fölsuðum Ozempic lyfjapennum

Lyfjastofnun hefur gengið úr skugga um að engir falsaðir Ozempic lyfjapennar hafi komið til landsins með lögmætum hætti

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur varað við fölsuðum áfylltum lyfjapennum sem fundist hafa hjá heildsölum í Evrópu og Bretlandi og eru ranglega merktir sykursýkislyfinu Ozempic. Löglega framleitt inniheldur lyfið 1 mg af virka efninu semaglútíð og er stungulyfslausn í áfylltum penna.

Fölsuðu pennarnir eru með þýskum áletrunum og koma upprunalega frá heildsölum í Austurríki og Þýskalandi. Þýska lyfjastofnunin hefur birt mynd af fölsuðum penna en myndin sýnir einungis dæmi og falsaðir lyfjapennar með öðru útliti gætu einnig verið í dreifingu.

Mynd: þýska lyfjastofnunin, BfArM

Munur er á útliti falsaðra penna og ósvikinna penna.

Þeir fölsuðu lyfjapennar sem uppgötvast hafa eru merktir lotunúmeri, strikamerki og raðnúmeri af ósviknum Ozempic lyfjapakkningum.

Rekjanleiki lyfjapakkninga í Evrópu tryggður

Á Evrópska efnahagssvæðinu er hver lyfjapakkning merkt með strikamerki og raðnúmeri svo hægt sé að tryggja rekjanleika lyfjapakkninga. Þetta er gert til að fölsuð lyf berist ekki inn í aðfangakeðju og að lokum til neytenda. Þegar pakkningar af fölsuðum Ozempic pennum voru skannaðar reyndust raðnúmerin óvirk sem gerði rekstraraðilum viðvart um hugsanlega fölsun.

Samkvæmt upplýsingum frá EMA er ekkert sem bendir til að falsaðir lyfjapennar merktir Ozempic hafi ratað frá apótekum með starfsleyfi til sjúklinga.

Málið er nú til rannsóknar hjá lyfjayfirvöldum í Evrópu og lögreglu. Heildsalar og apótek í viðkomandi löndum hafa verið vöruð við og að auki hefur dreifingaraðilum samhliða innfluttra lyfja innan EES verið gert viðvart.

Þýsk og austurrísk lyfjayfirvöld hafa gefið út yfirlýsingar um að ekki hafi verið unnið samkvæmt gæðastaðli um góða starfshætti við lyfjadreifingu (GDP) hjá þeim heildsölum þar sem fölsuðu lyfjapennarnir fundust.

Til hvaða ráðstafana hefur Lyfjastofnun gripið?

Öll meðhöndlun og umsýsla lyfja s.s. framleiðsla, innflutningur, dreifing, notkun og tilraunir með lyf lúta ákveðnum skilgreindum gæðastöðlum.

Lyfjastofnun hefur fengið váboð um að erlend heildsala, sem málið varðar, uppfylli ekki gæðastaðal um góða starfshætti við lyfjadreifingu (GDP). Samstundis var brugðist við með tilkynningu til lyfjadreifingaraðila á Íslandi, til að tryggja að viðskipti við þá heildsölu ættu sér ekki stað.

Þá hefur Lyfjastofnun gengið úr skugga um að umrædd lota með fölsuðum lyfjapennum hafi ekki komið til dreifingar á Íslandi eftir lögmætum leiðum.

Lyfjakaup á netinu geta verið varasöm

Á undanförnum árum hefur ólögleg netverslun með lyf færst mjög í vöxt um allan heim. Að framleiða og selja ólögleg lyf er arðbært en glæpsamlegt athæfi. Heilsu og jafnvel lífi neytenda er stefnt í hættu með því að selja lyf þar sem upplýsingar um innihald standast ekki, og framleiðslustöðlum er ekki fylgt. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á lyfjum sem seld eru með ólögmætum hætti á netinu hafa sýnt, að virkt innihaldsefni getur verið allt frá því að vera ekkert, yfir í að vera allt annað en tilgreint er á umbúðum.

Þá er einnig brýnt fyrir neytendum að sala lyfja á samfélagsmiðlum og söluvefjum á netinu er óheimil. Áhætta fylgir því að kaupa lyf frá þeim sem ekki uppfylla þær gæðakröfur sem gerðar eru til framleiðenda og dreifingaraðila.

Mikilvægt er að neytendur hafi framangreint í huga og versli eingöngu við viðurkennda aðila á netinu.

Allar lögmætar netverslanir lyfja í Evrópu birta sameiginlegt evrópskt merki netverslana á vef sínum. Tilgangur merkisins er að sýna neytendum að um lögmæta verslun með lyf er að ræða.

Sameiginlegt kennimerki lögmætra vefverslana með lyf
Síðast uppfært: 23. október 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat