Niðurstöður EMA varðandi örvunarskammt af Spikevax (Moderna)

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CHMP) hefur komist að þeirri niðurstöðu að gefa megi fullorðnum, 18 ára og eldri, örvunarskammt af bóluefninu Spikevax (Moderna)

Álit nefndarinnar byggir á á gögnum sem sýna að örvunarskammtur af Spikevax varð til að auka mótefnaframleiðslu hjá fullorðnum einstaklingum sem greinst höfðu með dvínandi magn mótefna. Örvunarskammtur bóluefnisins var gefinn 6 til 8 mánuðum eftir seinni skammtinn, og er hann helmingur þess sem sem var í fyrri sprautunum tveimur. Textar lyfsins verða uppfærðir til samræmis við þessa niðurstöðu.

Örvunarskammtur

Gögnin sem niðurstaðan byggir á benda til að mögulegar aukaverkanir séu svipaðar og eftir seinni skammtinn. Áfram verður fylgst náið með hugsanlegri hættu á hjartabólgum eða öðrum mjög sjaldgæfum aukaverkunum. EMA mun halda áfram að rýna öll gögn sem tengjast öryggi og virkni Spikevax.

Í október sl. komst CHMP að þeirri niðurstöðu að örvunarskammtur af Comirnaty (BioNTech/Pfizer) fyrir fullorðna, 18 ára og eldri, kæmi til greina a.m.k. 6 mánuðum eftir seinni skammtinn. Auk þess var mælt með að gefa fólki með mjög veikt ónæmiskerfi viðbótarskammt af Comirnaty og Spikevax, a.m.k. 28 dögum eftir að það fékk seinni skammtinn.

Viðbótarskammtur og örvunarskammtur

Mikilvægt er að gera greinarmun á viðbótarskammti (þriðja skammti) sem einstaklingar með veiklað ónæmiskerfi þurfa á að halda til að fá sem besta vörn gegn COVID-19, og svokallaðs örvunarskammts (e. booster dose) sem er gefinn hraustum einstaklingum 18 ára og eldri.

Fyrir þá sem fá viðbótarskammt af Spikevax er gefinn fullur skammtur (100 µg), en hálfur skammtur þegar um er að ræða örvunarskammt (50 µg). Um Comirnaty gegnir öðru máli. Af því bóluefni eru viðbótarskammtur og örvunarskammtur jafnstórir.

Nánar í frétt EMA

Síðast uppfært: 2. nóvember 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat