Norræn samvinna um lyfjamál styrkt með nýrri stefnu

Mótuð hefur verið stefna sem snýst um skapandi lausnir í samvinnu um lyfjaútboð, öruggt framboð lyfja og sterka norræna rödd á evrópskum vettvangi

Mikilvæg norræn samvinna er af ýmsu tagi. Hinn svokallaði Norræni samráðsvettvangur um lyfjamál (Nordisk Lægemiddel Forum, NLF) hófst með samvinnu Svíþjóðar, Noregs og Damerkur um þekkingarmiðlun, lyfjaútboð og innkaup árið 2015. Ísland bættist í hópinn 2017 og Finnland nokkru síðar. Markmið vettvangsins er m.a. að miðla þekkingu og deila verkefnum, og ná fram meiri hagræðingu í lyfjainnkaupum í krafti stærðar. Hin hlutfallslega fámennu ríki Norðurlanda eru sterkari á alþjóðasviðinu ef þau vinna saman.

Samráðshópurinn kom saman 20. apríl sl. og undirrituð var ný stefna sem nær til ársins 2025. Fyrir hönd Íslands tóku þátt fulltrúar frá Landspítala og Lyfjastofnun.

Síbreytilegur heimur – lærdómur síðustu ára

Heimsfaraldur COVID-19 leiddi í ljós hve lyfjamarkaðurinn er samtengur á heimsvísu og hve viðkvæmur hann er fyrir hvers kyns frávikum. Evrópusambandið mótaði nýja lyfjastefnu árið 2020 sem líklega mun leiða til nýrrar evrópskrar lyfjalöggjafar nú í vor. Sömuleiðis kom Evrópusambandið á fót nýrri stofnun, The Health Emergency Preparedness and Response (HERA) til að freista þess að tryggja lyfjabirgðir á tímum heilsuvár. Að auki má nefna að fyrirséð er að kostnaður norrænu heilbrigðiskerfanna vegna lyfja mun halda áfram að vaxa í ljósi hækkandi aldurs þjóðanna. Allt það sem hér er nefnt kallaði á að NLF mótaði nýja stefnu sem nú hefur verið undirrituð.

Megináhersla nýrrar stefnu

Megináhersla nýrrar stefnu samnorræna vettvangsins er í þremur liðum. Skapandi lausnir í samvinnu um lyfjaútboð og innkaup, öruggt framboð lyfja og sterk norræn rödd á evrópskum vettvangi.

Skapandi lausnir í innkaupum

Þeir aðilar sem standa að samráðsvettvangnum vonast til að með því leita skapandi lausna í innkaupum sé hægt að tryggja að sjúklingar hafi áfram öruggan aðgang að bæði nýjum lyfjum og gömlum. Einnig er vilji til þess að lyfjaútboð styðjist í auknum mæli við umhverfisviðmið, en Ísland, Noregur og Danmörk fengu sl. haust evrópsk verðlaun fyrir fyrsta samnorræna útboðið á lyfjum þar sem áhersla var m.a. lögð á grænar leiðir.

Áhersluþátturinn skapandi lausnir verður þríþættur

  • Ný lyf, þ.m.t. ný erfðatæknilyf
  • Sameiginlegt útboð norrænu landanna
  • Rýna væntanleg lyf (Horizon Scanning)

Grænar leiðir

Evrópsku verðlaunin fyrir umhverfisáherslu í lyfjaútboði sýna að norrænu löndin hafa þegar náð góðum árangri á þessu sviði. Í nýrri stefnu samráðsvettvangsins er undirstrikuð áhersla á grænar leiðir við að ná hagstæðum lausnum fyrir opinber heilbrigðiskerfi, eins og fram kom í máli Rannveigar Ölmu Einarsdóttur, en hún tók þátt í stefnumótuninni sem klínískur lyfjafræðingur og verkefnastjóri hjá lyfjanefnd Landspítalans.

„Sá tími er liðinn að samningar í lyfjaútboði snúist eingöngu um verð, gæði og að koma vörunum á leiðarenda. Nú þarf einnig að huga að umhverfinu, að sjálfbærni verði í fyrirrúmi. Þess vegna höfum við ákveðið að leggja skýrar línur hvað grænar lausnir varðar.“

Rannveig Alma Einarsdóttir

Horft fram á veginn (Horizon Scanning)

Mikilvægt atriði í skapandi lausnum samráðsvettvangsins er að stöðugt sé horft fram á veginn, skipulega skimað fyrir því sem gæti verið í vændum, nýrri þróun, nýjum möguleikum. Þannig gætu verið tækifæri til að sjá fyrir um ný og vænleg lyf og vera tímanlega í að semja við birgja og undirbúa útboð.

Unnið að tryggu framboði lyfja

Á vettvangi norræna lyfjasamráðsins hefur miðlun upplýsinga um lyfjaskort og viðbrögð við honum verið með miklum ágætum, og stefnt er að því að svo verði áfram. Annar þáttur í að tryggja nægt framboð lyfja er framleiðsla sjúkrahúsapóteka á forskriftarlyfjum, og í stefnunni er lýst vilja til að miðla upplýsingum um þróun og framleiðslu slíkra lyfja. Þegar til lengri tíma er litið gætu forskriftarlyf verið framleidd fyrirfram og tiltæk þegar á þarf að halda.

Kröftug rödd norrænu ríkjanna

Samvinna norrænu ríkjanna í lyfjamálum hefur þegar skilað góðum árangri við að tryggja aðgengi að lyfjum, m.a. fyrir opinberar heilbrigðisstofnanir. Þessum árangri þarf að fylgja eftir með kröftugum hætti til að vekja athygli á hagsmunum norrænu þjóðanna. Ennfremur þurfa norræn heilbrigðisyfirvöld að efla samskipti við hagsmunaaðila, báðum til hagsbóta.

Stefna norræns samráðsvettvangs um lyfjamál

Síðast uppfært: 22. maí 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat