Smásöluálagning lyfseðilsskyldra lyfja breytist 1. október

Hámarkssmásöluverð lyfseðilsskyldra lyfja er birt í lyfjaverðskrá og sérlyfjaskrá. Apótekum er enn sem áður heimilt að veita afslætti frá opinberu hámarkssmásöluverði. Hækkunin hefur óveruleg áhrif á lyfjanotendur

Smásöluálagning lyfseðilsskyldra lyfja hækkar 1. október nk. um 3,6% miðað við heildarsmásöluálagningu 2022. Sjá nánar forsendur ákvörðunar í frétt Lyfjastofnunar.

Neðangreind tafla sýnir hvernig hámarkssmásöluverð lyfseðilsskyldra lyfja verður reiknað út frá heildsöluverði frá og með 1. október 2023:

HámarksheildsöluverðSmásöluálagning
0 – 4.999 kr.20% + 1.181 kr.
5.000 – 19.999 kr.14% + 1.454 kr.
20.000 – 99.999 kr.2% + 3.538 kr.
100.000 kr.0,3% + 6.670 kr.
Ofan á heildsöluverð að viðbættri álagningu leggst virðisaukaskattur

Athuga skal að umrædd hækkun smásöluálagningar segir ekki til um hækkun lyfjaverðs í heild sinni. Lyfjaverð samanstendur af innkaupsverði apóteka, smásöluálagningu og virðisaukaskatti.

Dæmi:

  • Lyf sem kostar 1.300 kr. í heildsölu, kostar í september 3.339 kr. í smásölu (m/vsk) en mun kosta 3.399 kr. í október. Hækkun verðs nemur þannig 60 kr. eða 1,8%.
  • Lyf sem kostar 7.000 kr. í heildsölu, kostar í september 11.574 kr. í smásölu (m/vsk) en mun kosta 11.698 kr. í október. Hækkun verðs nemur þannig 124 kr. eða tæplega 1,1%.

Hámarkssmásöluverð lyfseðilsskyldra lyfja er birt í lyfjaverðskrá og sérlyfjaskrá. Apótekum er heimilt að veita afslætti frá opinberu hámarkssmásöluverði.

Þess má geta að Sjúkratryggingar Íslands greiða meginhluta af lyfjakostnaði almennra lyfja á Íslandi og Landspítali greiðir fyrir leyfisskyld lyf. Hækkun þessi hefur því óveruleg áhrif á lyfjanotendur.

Aukin sala lyfja fyrstu sex mánuði ársins 2023

Gögn Sjúkratrygginga um sölu lyfseðilsskyldra lyfja í lyfjabúðum fyrir fyrstu 6 mánuði ársins sýna að sala hefur aukist um 7,5% (fjöldi seldra pakkninga) og smásöluvelta hefur hækkað um 20% miðað við sama tímabil árið 2022. Aukning smásöluveltu skýrist af því að smásöluálagning hækkaði 1. júlí 2022 og 1. mars 2023, gengisbreytingum á tímabilinu og aukinni magnsölu.

Þjónustugreiðslur

Þann 1. janúar sl. voru innleiddar nýjar þjónustugreiðslur til apóteka vegna afgreiðslu ódýrustu lyfja og nema þær alls tæplega 79 millj. kr. fyrstu 6 mánuði ársins.

Samkvæmt lyfjalögum hefur Lyfjastofnun það hlutverk að taka ákvörðun um lyfjaverð hér á landi, þar á meðal að ákvarða hámarksverð í smásölu á lyfseðilsskyldum lyfjum. Endurmeta skal forsendur lyfjaverðs reglulega, eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti, og gera tillögur um breytingar gefi matið tilefni til þess.

Síðast uppfært: 25. september 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat