Aukaverkanatilkynningar í apríl, maí og júní

Tilkynningum vegna gruns um aukaverkun lyfs fer áfram fækkandi

Fjöldi aukaverkanatilkynninga færðist að mestu leyti til fyrra horfs strax á vordögum 2022, og varð þá eins og var fyrir heimsfaraldurinn. Þannig var staðan síðari hluta síðasta árs, og þannig er staðan í grunninn fyrstu sex mánuði ársins 2023. Í janúar var þó um frávik að ræða sem gerð var grein fyrir í frétt um tilkynningar fyrstu þrjá mánuði ársins.

Fjöldi tilkynninga eftir alvarleika

Mánuðina apríl, maí og júní bárust Lyfjastofnun 14 tilkynningar um alvarlega aukaverkun. Í apríl voru slíkar tilkynningar 6, í maí 3, og í júní 5.

Rétt er að nefna sérstaklega 71 tilkynningu um alvarlega aukaverkun í janúar. Af þeim komu 64 frá Embætti landlæknis, tilkynningar um lyfjatengd andlát yfir tveggja ára tímabil, 2021 og 2022. Sömuleiðis eru frávik í mars en þá voru tilkynningar um alvarlega aukaverkun 18. Af þeim komu 13 frá Landspítala og tengjast vinnslu upplýsinga um hjartavöðva- og gollurshússbólgu, atvik sem ná yfir lengra tímabil en þann mánuð eingöngu.

Fjöldi tilkynninga eftir tilkynnendum

Í apríl barst ein tilkynning um aukaverkun frá lækni, 7 frá lyfjafræðingum og 12 frá notendum eða aðstandendum þeirra.

Í maí bárust 2 tilkynningar frá læknum, 3 frá lyfjafræðingum, 2 frá öðru heilbrigðisstarfsfólki og 3 frá notendum eða aðstandendum þeirra.

Í júní bárust 4 tilkynningar um aukaverkun frá læknum, 3 frá lyfjafræðingum, 1 frá starfsmanni úr annarri heilbrigðisstétt og 3 frá notendum eða aðstandendum þeirra.

Rétt er að taka fram að um tilkynningar vegna gruns um aukaverkun er að ræða. Það merkir að tilkynnt tilvik hafa átt sér stað í kjölfar lyfjanotkunar, en segir ekki til um hvort um orsakasamhengi sé að ræða milli tilvikanna og lyfjanotkunarinnar.

Fjölda aukaverkanatilkynninga ber alltaf að skoða í samhengi við notkun lyfs eða bóluefnis.

Mikilvægt að tilkynna um aukaverkun lyfs

Enn skal ítrekað að aukaverkanatilkynningar veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja þegar þau eru komin í almenna notkun. Því er rétt að hvetja almenning jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk til að senda upplýsingar um slík tilvik til Lyfjastofnunar.

Heilbrigðisstarfsmanni sem hefur grun um alvarlega, nýja eða óvænta aukaverkun af notkun lyfs í störfum sínum, er skylt að tilkynna það til Lyfjastofnunar. Þessi skylda er bundin í lög sem tóku gildi í ársbyrjun 2021, hana er að finna í 63. gr. lyfjalaga.

Allir geta tilkynnt grun um aukaverkun lyfs

Hægt er að tilkynna rafrænt í gegnum gátt á vef Lyfjastofnunar. Auk þess getur heilbrigðisstarfsfólk tilkynnt í gegnum Sögukerfið á þar til gerðu eyðublaði.

Síðast uppfært: 18. júlí 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat