Tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir í júní

Fjöldi tilkynninga svipaður og maí.

Fjöldi tilkynninga vegna gruns um aukaverkanir lyfja sem bárust Lyfjastofnun í júní var töluverður en alls bárust 586 tilkynningar í júní. Sá fjöldi er ekki langt frá þeim fjölda tilkynninga sem barst í maí eða 613. Þessir tveir mánuðir skera sig nokkuð úr fjölda tilkynninga á árinu. Af þessum tilkynningum tengdust 571 bóluefnum gegn COVID-19; 90 vegna Vaxzevria (AstraZeneca), 122 vegna bóluefnis Janssen, 84 vegna Spikevax (Moderna) og 275 vegna Comirnaty (Pfizer/BioNTech). 13 tilkynningar bárust vegna annarra lyfja og í 2 tilkynningum var ekkert lyf tilgreint.

Fjöldi tilkynninga eftir alvarleika

36 tilkynningar sem bárust í júní voru vegna gruns um alvarlega aukaverkun. 32 þeirra tengdust bóluefnum gegn COVID-19. 14 vegna Vaxzevria (AstraZeneca), 2 vegna bóluefnis Janssen, 3 vegna bóluefnis Spikevax (Moderna) og 13 vegna bóluefnis Comirnaty (Pfizer/BioNTech). Hinar fjórar tengdust öðrum lyfjum.

Fjöldi tilkynninga eftir tilkynnendum

Langflestar tilkynningar bárust frá notendum eða aðstandendum þeirra í júní eða alls um 484 tilkynningar. Þetta er mjög svipaður fjöldi og í maí en þá bárust alls 488 tilkynningar frá þessum hópi. 43 tilkynningar bárust frá læknum og 25 frá öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. Lyfjafræðingar sendu inn 10 tilkynningar. Í 24 tilkynningum var staða tilkynnanda ekki skráð.

Mikilvægt að tilkynna um aukaverkun lyfs

Enn skal áréttað að aukaverkanatilkynningar veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja þegar þau eru komin í almenna notkun. Því er rétt að hvetja almenning jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk til að senda upplýsingar um slík tilvik til Lyfjastofnunar, allir geta tilkynnt grun um aukaverkun lyfs. Hægt er að tilkynna rafrænt í gegnum gátt á vef Lyfjastofnunar.

Í því sambandi má líka minna á að Lyfjastofnun Evrópu hefur hvatt sérstaklega til þess að aukaverkanir lyfja sem gefin hafa verið við COVID-19 sjúkdómnum, þar á meðal vegna bóluefna gegn COVID-19, verði tilkynntar, sem og aukaverkanir af lyfjanotkun vegna annarra sjúkdóma meðan á COVID-19 veikindum stendur.

Síðast uppfært: 29. júlí 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat