Tillögur að ráðstöfunum Lyfjastofnunar til að hamla gegn misnotkun eftirritunarskyldra lyfja

Í síðasta mánuði var greint frá því á vef Lyfjastofnunar að stofnunin hyggst boða aðgerðir til að hamla gegn misnotkun eftirritunarskyldra lyfja. Á morgun, föstudag verða birtar nánari upplýsingar á vef stofnunarinnar m.a. um hvaða lyf tillögur Lyfjastofnunar ná til og tímafrest til þess að koma að athugasemdum.

Misnotkun ávana- og fíknilyfja þekkt vandamál

Misnotkun sterkra verkjalyfja og annarra ávana- og fíknilyfja er þekkt vandamál. Ákveðnar vísbendingar, t.d. sölutölur tiltekinna lyfja í þessum flokki á heildsölustigi, gefa til kynna að vandinn fari mögulega vaxandi. Gögn sem Lyfjastofnun hefur áður birt sýna t.a.m. að notkun lyfja sem innihalda ópíóíða eykst hér á landi á sama tíma og hún dregst saman á öðrum Norðurlöndum. Þá liggja einnig fyrir dæmi um dauðsföll í kjölfar lyfjaeitrana vegna notkunar slíkra lyfja sem hefur þá ekki verið samkvæmt fyrirmælum læknis.

Aðgangur almennings að þessum lyfjum er takmarkaður með ýmsu móti. Sum þeirra eru eftirritunarskyld, og lúta þ.a.l. sérstökum reglum um skráningu í tengslum við umsýslu þeirra en sum lúta sömu reglum og önnur lyf en má þó einungis afgreiða í takmörkuðu magni.

Þetta þekkta vandamál er ekki nýtt af nálinni eins og fyrr segir og hefur Lyfjastofnun áður gripið til ráðstafana í þeim tilgangi að reyna að draga úr misnotkun lyfjanna, t.d. þegar Lyfjastofnun afnam heimild til lausasölu lyfja sem innihalda virka efnið kódein.

Öll lyfin sem hér eru til umfjöllunar eru lyfseðilsskyld. Það þýðir að almenningur á einungis að geta fengið lyfin afgreidd í lyfjabúð gegn framvísun lyfseðils útgefnum af lækni. Lyfjastofnun er einungis falið lögum samkvæmt eftirlit með afgreiðslu og afhendingu lyfjafræðinga á lyfjum í lyfjabúð, ekki læknum og lyfjaávísunum þeirra.

Nauðsynlegt að grípa til frekari takmarkana á ávísun ávana- og fíknilyfja

Í ljósi fenginnar reynslu telur Lyfjastofnun að öflugasta tækið til að koma í veg fyrir bæði óhófleg not og hreina misnotkun lyfjanna sem um ræðir sé að sérstakrar árvekni sé gætt við ávísun þeirra á lyfseðil. Engu að síður metur Lyfjastofnun aðstæður nú sem svo að jafnframt sé nauðsynlegt að stofnunin grípi til frekari takmarkana á ávísun lyfjanna en nú þegar er gert. Fyrr á þessu ári var því ákveðið hjá Lyfjastofnun að kannað yrði hvort og þá hvað stofnunin gæti gert til að vinna gegn misnotkun lyfjanna sem um ræðir. Það er mat Lyfjastofnunar að vel athuguðu máli að árangursríkast sé að takmarka það magn sem ávísa má af þessum lyfjum í hverri lyfjaávísun. Með því telur Lyfjastofnun að draga megi úr heildarmagni lyfjanna sem er í umferð hverju sinni og þannig sporna gegn áðurnefndri misnotkun.

Með það að markmiði að stjórnvöld taki höndum saman um að stemma stigu við þeim vanda í tengslum við mikla notkun ávana- og fíknilyfja líkt og hér að framan er lýst, fyrirhugar Lyfjastofnun að takmarka leyfilegt magn þegar eftirritunarskyldum lyfjum er ávísað og verði tiltekið hámark ákveðið fyrir hvert lyf. Áætlað er að ákvörðun þessi nái til allra eftirritunarskyldra lyfja en ákvörðunin verði innleidd í áföngum, þ.e. byrjað verði á völdum lyfjum og þá m.a. litið til lyfja sem mikið hafa verið til umræðu hvað misnotkun varðar.

Þessi fyrirhugaða ákvörðun byggir á 1. mgr. 11. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, þar sem segir að Lyfjastofnun skuli ákveða hvort lyf skuli vera lyfseðilsskylt, hve mikið magn megi afhenda gegn lyfseðli og hve oft gegn sama lyfseðli. Fyrirhuguð ákvörðun tekur einnig mið af ákvæðum reglugerðar nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, þar sem fjallað er um eftirritunarskyldu lyfja.

Síðast uppfært: 14. september 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat