Viðvarandi og alvarlegur skortur hefur verið á sýklalyfjum um allan heim undanfarið.
Ýmsar ástæður hafa verið fyrir lyfjaskorti, aðfangakeðjur til framleiðslu bresta, innköllun ákveðinna lyfja eða vandamál við lyfjadreifingu. Einnig getur lyfjaskortur á ákveðnu lyfi aukið eftirspurn eftir öðrum sambærilegum, fáanlegum lyfjum og valdið því að birgðir þeirra klárast.
Lyfjastofnun vill því hvetja markaðsleyfishafa og umboðsaðila til að aðstoða við úrlausn vandans með því að kanna möguleika sína á að skrá og markaðssetja sýklalyf á Íslandi.
Mikið kapp hefur verið lagt á að finna leiðir til að koma til móts við markaðsleyfishafa með lækkun gjalda svo að fjölga megi nauðsynlegum lyfjum á markaði og fyrirbyggja afskráningar lyfja. Nýlega hafa reglur um lækkun gjalda samkvæmt gjaldskrá verið uppfærðar og ber þar helst að nefna nýjan lið sem snýr að núll daga skráningarferli.