Fréttir

Umræða um melatónín

22.9.2017

Undanfarna daga hefur átt sér stað umræða um melatónín í fjölmiðlum. Vaknað hafa spurningar um hvers vegna lyfið er lyfseðilsskylt hér á landi þegar hægt er að kaupa það sem fæðubótarefni í Bandaríkjunum svo dæmi sé nefnt. 

Efnið melatónín

Melatónín er náttúrulegt hormón sem líkaminn myndar sjálfur og stýrist framleiðslan af birtustigi. Þannig er lítið af melatóníni í líkamanum að degi til en þegar myrkur færist yfir fer melatónínframleiðslan af stað og kallar fram syfju. Ýmislegt getur valdið því að þessi hormónabúskapur líkamans fari úr skorðum og þá er stundum gripið til þess ráðs að bæta honum það með lyfjum sem eru eftirlíking hormónsins.

Flokkað sem lyf í Evrópu

Melatónín er flokkað sem lyf hér á landi eins og í öðrum Evrópulöndum. Notkun lyfsins hér á landi hefur margfaldast á fáeinum árum en ábending þess lyfs sem hér er á markaði og inniheldur melatónín (Circadin) miðar við að lyfið sé ætlað 55 ára og eldri. Einnig hefur innflutningur á efninu aukist mjög frá þeim löndum þar sem melatónín er skilgreint sem fæðubótarefni, sem og sala í gegnum netið og á samfélagsmiðlum. Slíkt er ólöglegt þar sem fæðubótarefni sem innihalda lyf skilgreinast sem ólögleg fæðubótarefni. Lyfjastofnun bendir á að eftirlit með innflutningi fæðubótarefna heyrir undir valdsvið Matvælastofnunar.

Rík ástæða fyrir faglegu eftirliti

Rík ástæða er fyrir þeirri ákvörðun að ávísun og sala melatóníns skuli sæta faglegu eftirliti en gangi ekki kaupum og sölum eins og hver annar varningur. Miklar gæðakröfur eru gerðar til framleiðenda lyfja og vottaðir lyfjaframleiðendur eru undir stöðugu eftirliti lyfjastofnunar viðkomandi lands. Áhætta fylgir því að kaupa lyf af þeim sem ekki uppfylla slíkar kröfur. Lyfið gæti verið falsað, rétt innihaldsefni hugsanlega ekki til staðar, magn innihaldsefnis ekki í samræmi við upplýsingar á umbúðum, eða lyfið innihaldið efni sem ekki er getið á umbúðum. Inntaka þess gæti því valdið skaða. Áður hefur á vef Lyfjastofnunar verið fjallað ítarlega um áhættuna af því að kaupa lyf af seljendum sem ekki eru vottaðir  og skýrt hvers vegna slíkt er ólöglegt.   

Sjá einnig: Spurt og svarað um innflutning einstaklinga

Til baka Senda grein